Bólusetning fyrir sauðburð

Af www.keldur.is

Varnarefni gegn Clostridium sjúkdómum í sauðfé (lambablóðsótt, garnapest (flosnýrnaveiki) og bráðapest )

Bóluefni

Á Tilraunastöðinni er  framleitt blandað bóluefni gegn lambablóðsótt, flosnýrnaveiki  og bráðapest. Bóluefnið er blanda af sýklum og eiturefnum þeim sem valda lambablóðsótt, flosnýrnaveiki (garnapest) og bráðapest. Hvoru tveggja hefur verið gert óvirkt með formalínmeðferð.

Bóluefnið er ætlað til nota í fengnar ær. Þar sem sjúkdómahætta er mikil er mælt með því að ærnar séu sprautaðar mánuði áður en sauðburður hefst og aftur 10 -14 dögum síðar. Þar sem smitálag er lítið hafa menn þó reynslu af því að nægjanlegt er að sprauta eldri ær, það er ær sem hafa verið bólusettar margoft áður, aðeins einu sinni u.þb. hálfum mánuði fyrir burð.

Við bóluesetninguna mynda ærnar mótefni gegn áðurnefndum sýklum og eituefnum þeirra og skila þeim til lambanna með broddmjólkinni. Uppsog mótefna frá görnum verður einkum fyrstu 36 klst eftir burð þannig að mikilvægt er að lömbin fái brodd sem fyrst eftir að þau koma í heiminn.

Mótefnin veita vörn fyrstu vikurnar eftir burð og þá einkum gegn lambablóðsótt sem mest hætta er á að lömbin fái á þessum tíma. Bólusetningin veitir hins vegar takmarkaða vörn gegn garnapest sem hrjáir einkum eldri lömb og alls enga gegn bráðapest sem yngra fé er hætt við á haustin. Þar sem mikil brögð eru að því að bændur missi hálfstálpuð lömb úr garanpest hafa sumir brugðið á það ráð að bólusetja lömbin nokkra vikna gömul. Ekki þýðir þó að bólusetja þau mikið yngri en þriggja vikna þar sem mótefni frá móður hindra verkun bóluefnisins. Menn hafa þó í einhverjum tilvikum bólusett allt niður í 10 daga gömul lömb.

Mótefnasermi

Önnur aðferð til þess að vernda nýfædd lömb gegn lambablóðsótt er að sprauta þau með mótefnasermi.

Sermið er framleitt í hrossum með því að sprauta þau síendurtekið með eituefnum sýklanna sem valda lambablóðsótt. Yfirleitt er sprautað einu sinni í viku með allt að 100 ml af toxíni í hvert sinn. Þegar hrossin eru farin að mynda nægjanlegt magn mótefna er þeim tekið blóð, blóðið látið storkna, sermið hirt og tappað á glös og notað í lömbin til þess að verja þau gegn sjúkdómnum. Sprauta þarf lömbin strax eða mjög stuttu eftir burð.

Hér áður fyrr var sermi mjög mikið notað sem varnalyf en þróunin hefur orðið sú að nota frekar bóluefni í ærnar. Víðast hvar er hætt að framleiða mótefnasermi í hrossum. Þetta er dýr og fyrirhafnasöm framleiðsla. Út frá dýraverndunarsjónarmiðum þykir ekki ásættanlegt að nota hross í þessu skini ef að til eru aðrar aðferðir sem skila sama árangri, eins og í þessum tilviki þar sem bólusetning ánna skilar mótefnum til lambanna á miklu eðlilegri hátt en sprautun með hrossamótefnasermi.

Síðast liðið ár var hætt framleiðslu sermis á Keldum enda hafði notkunin dregist mjög saman. Þar sem vart varð nokkurrar ónægju með þessa ákvörðun var ákveðið að framleiða sermi í ár en þó í mjög takmörkuðu magni.

Eindregið er mæli með því einfdregið að bændur bólusetji ærnar. Sermið skal einungis notað í neyðartilvikum ef að bólusetning hefur misfarist, menn "gleymt" að bólusetja eða ef að lambablóðsótt kemur upp á bæjum þar sem menn hafa alveg sleppt því að bólusetja vegna þess að þeir hafa ætlað  að sjúkdómurinn væri ekki til staðar í hjörðinni.

Þrílemba


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband