11.12.2008 | 15:49
Fróðleikur af www.dyri.com 29.mars 2007
Lambasjúkdómar
Nú líður að vori og ætla má að á Suðurnesjum muni um 600-800 lömb líta dagsins ljós. Á meðgöngutímanum, sem er fimm mánuðir, er jafnan hlúð vel að sauðfénu til að stuðla að góðum þroska og heilbrigði lambanna. Meðal þess sem þarf að gera er að bólusetja ærnar til að verja lömbin gegn sjúkdómum sem gætu annars dregið þau til dauða strax á fyrstu dögum og vikum ævinnar. Sjúkdómarnir sem um ræðir kallast lambablóðsótt, flosnýrnaveiki og bráðapest. Þeir eru af völdum clostridium-baktería sem finnast í nánasta umhverfi sauðfjárins og eiga greiða leið að nýbornum lömbum.
Lambablóðsótt leggst á 2ja til 3ja daga gömul lömb (ekki eldri en tveggja vikna) og þau fá blóðblandaðan niðurgang og miklar kvalir, stynja og fetta jafnan höfuðið aftur. Veikindin standa stutt og lömbin deyja innan fárra klukkutíma. Flosnýrnaveiki gefur svipuð einkenni og lambablóðsótt. Lömbin þembast einnig upp og oft má sjá froðu í munnvikum. Yfirleitt er um að ræða lömb eldri en tveggja vikna sem eru vel á sig komin sem veikjast. Bráðapest kemur upp hjá 2ja til 3ja vikna gömlum lömbum og finnast þau oft dauð án þess að veikinda verði vart. Sterka ólykt leggur gjarnan frá veikum lömbum, en miklar blæðingar verða í görnum. Bólusetja skal fengnar ær gegn ofannefndum þremur sjúkdómum hálfum mánuði áður en sauðburður hefst. Ær sem ekki hafa verið bólusettar áður skal bólusetja tvisvar með 10-14 daga millibili (fyrri bólusetning mánuði fyrir burð). Ef þessir sjúkdómar koma samt sem áður upp skal bólusetja eftirlifandi lömb eða gefa þeim sermi.
Meðal annarra sjúkdóma sem jafnan hrjá unglömb má nefna niðurgang sem getur verið av völdum E.coli eða annarra umhverfissýkla. Í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að veita góða stuðningsmeðferð og koma í veg fyrir vökvatap og hitatap. Síðan er mikilvægt að koma jafnvægi á þarmaflóruna á ný en það má til dæmis gera með því að gefa AB mjólk eða Prolac sem hefur gefið mjög góða raun. Í einhverjum tilfellum er meðhöndlun með sýklalyfjum nauðsynleg og slíkt skal gert í samráði við dýralækni. Í lokin skal nefna slefsýki en það er kólísýking sem kemur fram á fyrsta sólarhringnum og getur verið afar erfitt að meðhöndla. Slefsýki sést helst hjá veiklulegum lömbum sem fá ekki nægilegan brodd í upphafi. Lömbin verða dauf, hætta að sjúga og deyja innan sólarhrings sé ekkert að gert. Þeim þarf að gefa sýklalyf og sykur/saltlausn í magaslöngu og hjúkra vel þar til þau fara að sjúga sjálf.
Forvarnir eru alltaf besta meðferðin ef svo má segja og stærsti liðurinn í forvörnum er góður aðbúnaður. Þá er m.a. átt við gott fóður, aðgang að hreinu vatni, hrein fjárhús með góðri loftræstingu og góða umönnun þar sem smitvarnir eru viðhafðar. Séu veik dýr í húsinu skal einangra þau eins og kostur er.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:50 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta:)
Steini (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 21:15
Ekkert að þakka Þakka þér fyrir innlitin og kvittið
Fjáreigendafélag (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 18:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.